Dreifibréf nr. 7/2009. Liðspeglanir við slitgigt

Kostnaður við heilbrigðisþjónustu fer vaxandi á Vesturlöndum. Þessi aukning er mismikil eftir löndum og landsvæðum og byggist sjaldnast á mismunandi þörf á þjónustu eða tíðni heilsufarsvanda.

Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands eru gerðar að meðaltali tæplega 1400 liðspeglanir á hné á ári þar sem um leið er gerð aðgerð með skröpu (shaver). Ekkert liggur beint fyrir um ábendingar fyrir þessum aðgerðum í upplýsingum frá stofnuninni. Í þeim er þó ekki gert að liðþófa skv. sömu upplýsingum. Miðað við þetta má búast við að allnokkur hluti aðgerðanna sé framkvæmdur vegna gruns eða vissu um slitgigt. Annarra vandamála á borð við liðþófaskaða sem aðgerðar þurfi við er a.m.k ekki getið.


Viðamiklar rannsóknir sem gerðar hafa verið á undanförnum áratug benda eindregið til þess að slitgigt í hné sé almennt ekki ábending fyrir liðspeglunaraðgerð (Moseley JB, et al, NEJM 2002;347:81-8; Kirkley A, et al, NEJM 2008;359:1097-107). Liðspeglanir hafa jafnvel gert illt verra. Liðspeglun á því ekki við ef ekki er saga eða klínísk teikn sem benda til liðþófaáverka eða annarra vandamála í liðnum en slitgigtar. Vert er að benda á að rof í liðþófa sem greinist á segulómun er ekki sjálfkrafa ábending fyrir liðspeglun.

Slitgigt er vissulega ekki frábending fyrir liðspeglunaraðgerð og kann hún að vera viðeigandi aðgerð hjá sjúklingum þegar slitgigt er ekki talin vera helsta orsök verkja.

Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsfólk hafi í huga ofnotkun á þjónustu og oflækningar og stemmi stigu við henni. Læknar þurfa að taka mið af bestu þekkingu á hverjum tíma og ástunda gagnreynd (evidence based) vinnubrögð. Leggja verður ríka áherslu á að kostnaðarvitund er hluti af siðgæðisvitund heilbrigðisstarfsmanna. Landlæknisembættið hyggst á næstunni vekja sérstaka athygli á tilteknum þáttum í meðferð og rannsóknum sem ýmislegt bendir til að séu ofnotaðir hér á landi.


Rík ástæða er til að minna okkur öll á að stunda gagnreynda læknisfræði og beita skynsamlegu og góðu klínísku mati þannig að ákvarðanir gagnist sjúklingum okkar sem best.

Seltjarnarnesi, 8. júní 2009

Landlæknir

 

Sent heimilis- og bæklunarlæknum.
Afrit sent Sjúkratryggingum Íslands og heilbrigðisráðuneytinu.

 

<< Til baka