Dreifibréf nr. 3/2009. Ný skimunartæki í ung- og smábarnavernd

Landlæknisembættið hefur, í samstarfi við Miðstöð heilsuverndar barna, unnið að endurskoðun á Handbók ung- og smábarnaverndar sem Landlæknisembættið gaf út árið 1996. Ákveðið hefur verið að nota ný tæki til að meta þroska barna sem eru PEDS Mat foreldra á þroska barna og BRIGANCE þroskaskimun. Námsmatsstofnun hefur unnið að þýðingu, staðfæringu og forprófun á tækjunum í samstarfi við Landlæknisembættið og Miðstöð heilsuverndar barna. Hér á eftir er gerð nánari grein fyrir þessum skimunartækjum.

PEDS Mat foreldra á þroska barna
PEDS (Parent´s Evaluation of Developemental Status) er spurningalisti þar sem foreldrar geta lýst yfir áhyggjum sínum varðandi málþroska, heyrn, fín- og grófhreyfingar, hegðun (m.a. athygli) og almennri þroskaframvindu barns síns, en þetta eru þættir sem spá fyrir um raunveruleg vandamál barna.

Við fyrirlögn PEDS svara foreldrar tíu spurningum um þroska og hegðun barna sinna og tekur innan við 10 mínútur að svara listanum. Á grundvelli svara foreldranna tekur það fagmann aðeins að jafnaði um tvær mínútur að meta næstu skref. Hægt er að nota PEDS frá fæðingu og þar til barnið verður 8 ára. Til að byrja með er mælt með að nota PEDS við skoðun 18 mánaða, 2½ árs og 4 ára barna, en ekkert hindrar þó notkun þess á öðrum aldri barnsins ef ástæða þykir til.

BRIGANCE þroskaskimun
BRIGANCE þroskaskimun felst í fyrirlögn hjúkrunarfræðings á verkefnum sem barnið fær tækifæri til að leysa. BRIGANCE skimunartækið nær til margra þroskaþátta. Skimunin skiptist í þrjú svið: skólafærni, samskiptafærni og hreyfifærni og mælir fín- og grófhreyfingar, málnotkun, orðaforða og málskilning, forlestrarfærni, magnhugtök og þekkingu á persónulegum högum. BRIGANCE hefur góðan innri stöðugleika, mikinn áreiðanleika við endurprófun og gott samræmi milli mismunandi prófenda. Það hefur háa fylgni við mælingar á skólafærni og vitsmunaþroska, og einnig við mælingar á málþroska, félags- og hreyfifærni.

BRIGANCE þroskaskimun verður lagt fyrir 2½ árs og 4 ára gömul börn samhliða PEDS til að auka sértæki þessa nýja vinnuferlis, þ.e. að greina raunveruleg frávik. Hægt er að leggja BRIGANCE fyrir og skrá niðurstöður á 15-20 mínútum.

BRIGANCE og PEDS voru notuð í rannsókn á 5 ára börnum árið 2003-2004 sem gerð var af þverfaglegum hópi barnalækna, barnageðlækna, sálfræðinga og hjúkrunarfræðinga. Niðurstöðurnar benda til að þessi tvö tæki nýtist vel í starfi hér á landi. Þau þóttu auðveld í notkun og almenn ánægja var með þau á þeim þremur heilsugæslustöðvum sem tóku þátt í rannsókninni.

Námsmatstofnun hefur gengið frá prentun leiðbeininga og eyðublaða sem nota þarf við fyrirlögn skimunartækjanna. Einnig hafa verið útbúnar töskur með gögnum og leiðbeiningum. Þessar töskur er hægt að panta hjá Námsmatstofnun og kosta þær kr. 39.000. Um er að ræða upphafskostnað sem greiddur er einu sinni og er fjárfesting til margra ára.

Íris Johansen tekur á móti pöntunum í síma 550-2400 eða iris@namsmat.is og verður taskan með skimunartækjunum send í póstkröfu fyrir heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni en einnig verður hægt að nálgast þær í Borgartúni 7a þar sem Námsmatsstofnun er til húsa.

Skimunartækin eru í tösku sem inniheldur:

 • BRIGANCE þroskaskimun fyrir 2 ½ árs (inngangur og matstæki í sömu bók, þ.e. leiðbeiningar á íslensku). 
 • BRIGANCE þroskaskimun fyrir 4 ára (inngangur og matstæki í sömu bók, þ.e. leiðbeiningar á íslensku). 
 • Skráningarblöð fyrir 2 ½ árs (40 stykki). 
 • Skráningarblöð fyrir 4 ára (40 stykki). 
 • Handbók (á ensku) fyrir BRIGANCE þroskaskimunina. 
 • Kubbakassi með 10 kubbum. 
 • Breiður blýantur og litur. 
 • PEDS-matsblað foreldra (120 stykki). 
 • PEDS-túlkunarblað/stigablað (120 stykki). 
 • PEDS-leiðbeiningar um framkvæmd og stigagjöf (smá hefti). 
 • PEDS handbók (á ensku).

TM-Software er að vinna að breytingum á einingu ung- og smábarnaverndar í SÖGU-kerfinu undir umsjón heilbrigðisráðuneytisins. Þær fela í sér talsverðar breytingar á viðmótinu og gera það mun notendavænna. Þá verða skráningarblöð fyrir PEDS og BRIGANCE í nýju einingunni. Gert er ráð fyrir að einingin verði tilbúin í lok mars 2009.

Það er skoðun Landlæknisembættisins að sú ákvörðun að taka upp þessi tvö skimunartæki styðjist við bestu þekkingu um þroska barna og á þeim vandamálum sem íslensk börn eiga við að etja í dag. Þjálfun starfsfólks ung- og smábarnaverndar á landsvísu um notkun þessara tækja mun ennfremur styrkja þekkingu starfsfólksins á eðlilegum þroska barna og hegðun þeirra.

Þjónusta ung- og smábarnaverndar er vel metin af foreldrum. Mikilvægt er að samstarf við þá sé byggt á grunni gagnkvæms trausts og að framkvæmd þjónustunnar taki mið af bestu þekkingu og reynslu hvers tíma og þróist í samræmi við það.

Seltjarnarnesi, 27. febrúar 2009

Landlæknir

Sent til forstjóra heilbrigðisstofnana, heilsugæslustöðva, yfirhjúkrunarfræðinga/framkvæmdastjóra hjúkrunar og yfirlækna/framkvæmdastjóra lækninga, Miðstöðvar heilsuverndar barna og Miðstöðvar mæðraverndar

 

<< Til baka