Dreifibréf nr. 2/2009. Rafræn sjúkraskrá

Rafræn sjúkraskrá er mikilvæg í samskiptum einstaklinga og heilbrigðisstarfsmanna þar sem hún stuðlar að því að veitt sé örugg og viðeigandi heilbrigðisþjónusta. Eðli málsins samkvæmt inniheldur hún bæði verðmætar og viðkvæmar upplýsingar. Tryggja þarf öryggi þessara upplýsinga í samræmi við lög um réttindi sjúklinga, lög og reglur Persónuverndar og viðurkennda öryggisstaðla í upplýsingatækni. Fagleg vinnubrögð í rekstri öryggiskerfa eru lykillinn að árangri í þessu efni. Þau vinnubrögð snúast um skráða upplýsingaöryggisstefnu, gerð áhættumats, verklagsreglur, öryggisráðstafanir og innra eftirlit.

Að gefnu tilefni er minnt á að mikilvægt er að sinna innra eftirliti með reglubundnum hætti til þess að ganga úr skugga um að unnið sé í samræmi við gildandi lög og reglur, samþykkt skipulag og vinnuferla. Innra eftirlit felst m.a. í því að hugað sé að aðgangsmálum. Allur aðgangur að heilsufarsupplýsingum skal vera skráður og fylgjast þarf reglulega með hverjir nota gögnin og hvernig og bregðast við ef notkun er ekki í samræmi við reglur. Niðurstöður innra eftirlits skulu skráðar og vera aðgengilegar eftirlitsaðilum þegar eftir því er leitað.

Öllu starfsfólki ber að undirrita trúnaðaryfirlýsingu. Nauðsynlegt er að tilkynna starfsmönnum að haft verði eftirlit með aðgangi þeirra að rafrænni sjúkraskrá, hvernig eftirlitinu er háttað og hver viðurlög eru ef starfsmaður brýtur reglur.

Landlæknir hefur lögum samkvæmt eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og fylgist með að þeir fari að ákvæðum heilbrigðislöggjafar og ákvæðum annarra laga og stjórnvaldsfyrirmæla eftir því sem við á. Ef landlæknir verður var við að heilbrigðisstarfsmaður vanrækir starfsskyldur sínar, fer út fyrir verksvið sitt eða brýtur í bága við ákvæði í heilbrigðislöggjöf landsins beinir landlæknir tilmælum til hans um úrbætur og áminnir hann eftir atvikum. Þá getur einnig komið til sviptingar starfsleyfis.

 

Seltjarnarnesi, 17. febrúar 2009
Landlæknir


Sent til: Forstjóra stofnana í heilbrigðisþjónustu

 

<< Til baka