Dreifibréf nr. 2/2010. Aukin misnotkun lyfsins Lyrica

Landlæknisembættinu hafa á undanförnum mánuðum og misserum borist fjöldi ábendinga um misnotkun á lyfinu Lyrica (pregabalin). Nokkrar tilkynningar hafa komið frá Lyfjastofnun þessa efnis.Yfirlæknir SÁÁ hafði sérstaklega samband við Landlæknisembættið vegna Lyrica og segir svo í bréfi sem hann ritaði í kjölfar þess:

,,Nú um nokkurt skeið hefur það verið okkur læknunum á Vogi ljóst að sjúklingar okkar nota lyfið Lyrica óhóflega. Minnir neyslan mjög á það sem tíðkast þegar BZO eru misnotuð. Neyslan er í bland við önnur vímuefni. Fleiri og fleiri sjúklingar hafa tjáð okkur að þeir sækist eftir slævandi verkun lyfsins og taki það oft óhóflegum skömmtum. Auk þessa höfum við fregnir af því og sjúklingar segja okkur að þeir noti lyfið beinlínis til þess að fara í vímu af. Reynsla okkar vímuefnalæknanna á Vogi er því eindregin sú að lyfið sé okkar vímuefnafíklum nokkuð hættulegt bæði veldur það föllum hjá vímuefnasjúklingum og þeir sækjast eftir lyfinu til þess að komast í vímu."

Sömu sögu er að segja frá geðdeild Landspítala, en svo segir í bréfi yfirlæknis á fíknigeðdeild um fólk með fíknivanda, sem þangað leitar:

,,Við erum nú nánast hætt að nota Lyrica í meðferð geðrænna einkenna hjá fíklum og ef fólk er á þessu lyfi við innlögn tröppum við það yfirleitt út. Við höfum bæði séð að fólk hefur viljað auka skammta hratt og mikið og eins heyrt af að þetta lyf sé nú talsvert misnotað meðal fíkla. Einhverjir hafa verið að sprauta sig með lyfinu. Það er talsverð ásókn í lyfið hér á vöktum."

Þessa er lítt getið í lyfjaupplýsingum fyrir Lyrica (SPC) og þykir því Landlæknisembættinu sérstök ástæða til að vekja athygli á málinu.

Jafnframt er vakin athygli á því að lyfið er dýrt og notkun þess hefur aukist mikið undanfarin ár. Kostnaður Sjúkratrygginga hefur þannig aukist úr 94 milljónum árið 2007 í 329 milljónir árið 2009.

Í þessu sambandi er jafnframt vakin athygli á því að lyfjafyrirtækið Pfizer þurfti á síðastliðnu hausti að greiða hæstu bætur sem um getur í sögu bandarískrar heilbrigðisþjónustu, eða 2,3 milljarða dollara vegna óeðlilegrar markaðssetningar fjögurra lyfja og var Lyrica eitt þeirra.


Seltjarnarnesi, 28. apríl 2010
Matthías Halldórsson
aðstoðarlandlæknir


Sent til lækna

 

<< Til baka