Dreifibréf nr. 3/2010. Starfsleyfi heilbrigðisstétta

Heimild til að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður hér á landi.

Að gefnu tilefni vill Landlæknisembættið vekja athygli allra sem átt geta hlut að máli að óheimilt er að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður á Íslandi áður en tilskilið starfsleyfi hefur verið gefið út af landlækni og er í gildi.

Undantekningar geta átt við um fólk sem býr í öðru EES-landi og óskar eftir að veita heilbrigðisþjónustu hér á landi tímabundið eða með hléum.

Frá og með 1. apríl 2008 hefur útgáfa starfsleyfa til heilbrigðisstarfsmanna verið á vegum landlæknis. Sá einn hefur rétt til þess að starfa hér á landi sem starfsmaður heilbrigðisstétta sem lokið hefur námi með prófgráðu í einhverri grein heilbrigðisfræði og fengið starfsleyfi frá landlækni á grundvelli hennar. Heilbrigðisstéttir í landinu eru alls 32 og njóta þær lögverndaðs starfsheitis. Nánar er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfa í lögum og reglugerðum um heilbrigðisstéttir.

Því vill landlæknir árétta að stofnunum er ekki heimilt að ráða einstakling til starfa sem heilbrigðisstarfsmann nema viðkomandi hafi gilt starfsleyfi á Íslandi og geti framvísað því við ráðningu.

Heilbrigðisstarfsmanni sem hyggst hefja rekstur heilbrigðisþjónustu ber að hafa gilt starfsleyfi hér á landi áður en hann tekur til starfa og hafa fengið staðfest af landlækni að þjónusta sem tilkynnt er teljist uppfylla faglegar lágmarkskröfur.

Landlæknisembættið fer þess á leit við þá sem mennta heilbrigðisstéttir hér á landi að þeir kynni vel fyrir nemendum lög og reglur er varða heilbrigðisstarfsmenn.


Seltjarnarnesi 21. júlí 2010

Landlæknir


Sent til Sjúkratrygginga Íslands, stofnana í heilbrigðisþjónustu, háskóla, verkmennta- og framhaldsskóla sem mennta heilbrigðisstéttir og fagfélaga heilbrigðisstétta. Afrit sent til heilbrigðisráðuneytisins.

 

<< Til baka