Dreifibréf Nr. 7/2010. Lyfjagjafir í grunnskólum

Tilmæli landlæknis um lyfjagjafir í grunnskólum

Landlæknisembættið beinir þeim tilmælum til starfsfólks í heilsuvernd skólabarna og skólastjórnenda að eftirfarandi reglum verði fylgt um lyfjanotkun barna á skólatíma.

Í fæstum tilvikum geta börn borið ábyrgð á lyfjatöku sinni. Þar skiptir þó aldur og lyfjategund máli. Ábyrgðin er forráðamanna en hjúkrunarfræðingar og starfsmenn skóla aðstoða við lyfjatökuna. Meginreglan er sú að barn á aðeins að fá lyf á skólatíma sem forráðamenn hafa komið með í skólann og óskað eftir að barnið fái. Í sjúkrakössum skólanna ættu ekki að vera önnur lyf en parasetamol töflur til að gefa við verkjum. Ef nokkur kostur er skal alltaf hafa samráð við foreldra um slíka lyfjagjöf.

Læknar skulu leitast við að haga lyfjaávísunum þannig að börn þurfi sem minnst að taka lyf á skólatíma.

Starfsfólk í heilsuvernd skólabarna ætti að leitast við að hafa upplýsingar um þau börn sem þurfa að taka lyf á skólatíma. Nemendur skulu aðeins fá þau lyf í skólanum sem forráðamenn þeirra hafa óskað eftir. Forráðamenn barna sem þurfa á lyfjum að halda á skólatíma skulu í samráði við starfsfólk í heilsuvernd skólabarna eða skólastjórnendur ákveða hvernig lyfjagjöf er hagað.

Forráðamönnum ber að afhenda starfsfólki í heilsuvernd skólabarna eða starfsmanni skólans þau lyf sem börn eiga að fá í skólanum. Æskilegt er að kvittað sé fyrir móttöku þeirra, tegund og magn (kvittun fyrir móttöku lyfja). Börn eiga ekki vera sendiboðar með lyf. Sá sem er ábyrgur fyrir lyfjagjöf barna fylgist með lyfjabirgðum og gerir viðeigandi ráðstafanir þegar lyf fer að skorta. Lyf barna skulu geymd í læstri hirslu á tryggum stað í skólanum.

Börn skulu ekki hafa lyf undir höndum í skólanum nema í undantekningartilvikum. Slíkar lyfjagjafir geta t.d. verið insúlín sem barnið sér um sjálft og adrenalín (EpiPen) sem ákveðið er að barn hafi á sér. Unglingar sem hugsanlega þurfa verkjalyf vegna þekktra vandamála, t.d. tannréttinga, tíðaverkja eða afleiðinga slysa mega hafa dagskammt af verkjalyfjum undir höndum ef forráðamenn þeirra telja að þau geti tekið ábyrgð á því sjálf.

Börn skulu í flestum tilvikum koma til viðkomandi starfsmanns og taka lyfið. Ef barn gleymir því ber þeim sem hefur ábyrgð á lyfjatöku barnsins innan skólans að hafa samband við kennara til að minna barnið á.

Í ferðum á skólatíma skal skólastjóri semja við ábyrgan aðila sem fylgir börnunum um að hafa umsjón með lyfjagjöfum. Einungis skal hafa lyf meðferðis fyrir þann tíma sem áætlað er að vera í burtu.

Ábyrgð þeirra er deila út lyfjum til barna í skólum nær einvörðungu til þess að lyfið sé gefið á réttum tíma en ekki til hugsanlegra aukaverkana eða annarra afleiðinga sem lyfjagjöfin kann að hafa. Sjá ráðleggingar vegna lyfjagjafa í skólum.

Seltjarnarnesi, 20. október 2010
Landlæknir


Meðfylgjandi: Ráðleggingar Landlæknisembættisins til starfsmanna skóla vegna lyfjagjafa í skólum. (PDF)


Sent til heilsugæslustöðva, heilsuvernd í skólum.
Afrit sent heilbrigðisráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu.

<< Til baka