Dreifibréf nr. 4/2011. Lyfjaskírteini

Efni: Lyfjaskírteini vegna ADHD.

Þann 1. janúar 2011 gengu í gildi nýjar reglur um útgáfu lyfjaskírteina vegna einstaklinga sem þurfa á methylphenidat-lyfjum að halda. Í þeim fólst að eingöngu geðlæknar, barna- og unglingageðlæknar, barnalæknar og taugalæknar gætu sótt um lyfjaskírteini fyrir þessa einstaklinga. Til að auðvelda endurnýjanir lyfjaávísana var auk þess lagt til að 1-2 aðrir læknar gætu verið skráðir á lyfjaskírteini viðkomandi.

Sjúkratryggingar Íslands hafa nú endurútgefið lyfjaskírteini á grunni þessara vinnureglna og endurnýjun allra var lokið 1. maí 2011. Þó ekki sé komin full reynsla á þetta fyrirkomulag benda fyrstu niðurstöður til þess að árangur sé að nást. Aftur á móti hefur komið í ljós að nokkur fjöldi einstaklinga fær þessi lyf ávísað án lyfjaskírteinis. Samkvæmt nýjum tillögum verður gerð krafa um að allir á methylhpenidat-lyfjum séu með lyfjaskírteini og er verið að vinna að því að það gangi fram.

Ofangreint fyrirkomulag krefst góðs upplýsingaflæðis frá þeim lækni sem hefur meðferð með methylphenidat-lyfjum til þeirra lækna sem eru skráðir á lyfjaskírteini viðkomandi. Því vill landlæknir með þessu dreifibréfi leggja áherslu á að allir þeir læknar sem eru skráðir á lyfjaskírteini um methylphenidat-lyf séu fullupplýstir um það. Megintilgangur vinnureglunnar er einmitt sá að upplýsingaflæði milli lækna um þessa einstaklinga sé gott og leiði þannig til góðrar greiningar, meðferðar og eftirfylgdar.

Ábyrgð lækna varðandi lyfjaávísanir á methylphenidat-lyf hefur verið mikið til umfjöllunar á liðnum vikum. Landlæknir hvetur alla lækna til að vera á varðbergi gagnvart misnotkun þessara lyfja. Vanda þarf til sjúkdómsgreiningarinnar og tryggja þarf að eftirfylgd með einstaklingum á þessum lyfjum standist þær faglegu kröfur sem gerðar eru í klínískum leiðbeiningum landlæknis frá árinu 2007 . Þessar leiðbeiningar eru nú í endurskoðun og verða settar á heimasíðu embættis landlæknis á allra næstu vikum. Hvetur landlæknir alla lækna til að kynna sér þessar leiðbeiningar svo að meðferð bæði barna og fullorðinna sem greinast með athyglisbrest og ofvirkni sé í samræmi við bestu þekkingu og reynslu.

Geir Gunnlaugsson
landlæknir

<< Til baka