Dreifibréf nr. 6/2011. Umferðaröryggi barna og tannvernd

Við sameinum tvær áherslur í öryggi barna og sendum nemendum í 2. og 3. bekk grunnskóla endurskinsmerki til að auka öryggi þeirra í umferðinni og er það jafnframt áminningarspjald um tannvernd. Við biðlum til ykkar að dreifa merkjunum til barnanna og ræða við þau í leiðinni um þessa tvo áhersluþætti.

Göngum örugg í skólann með endurskinsmerki
Nú fara dimmir dagar í hönd og því er brýnt að sjást vel í umferðinni. Bílar og hjól nýta ljós til að sjást en gangandi vegfarendur nýta endurskins-merki. Með endurskinsmerki sjáumst við fimm sinnum fyrr en án merkis (sjá mynd).

Hreinar tennur - heilar tennur
Nýuppkomnar fullorðinstennur hjá börnum eru sérlega viðkvæmar fyrir tannskemmdum og því brýnt að börnin tileinki sér góðar tannheilsuvenjur með aðstoð hinna fullorðnu.

Fjórir lykilþættir til að koma í veg fyrir tannskemmdir eru:

 

  • Burstum tvisvar á dag og notum tannþráð. 
  • Notum flúortannkrem. 
  • Borðum ávexti og grænmeti í staðinn fyrir sætindi. 
  • Drekkum vatn sem drykk við þorsta.

 

Á vefsetri embættisins er hægt að nálgast spjald (A4) til að lita.

Einnig er hægt að panta sambærilegt veggspjald í stærðinni A3.

Sé óskað frekari upplýsinga er velkomið að hafa samband við Jóhönnu Laufeyju Ólafsdóttur, verkefnisstjóra tannverndar, netfang: johanna@landlaeknir.is


Reykjavík 17. október 2011
Landlæknir

Sent til skólahjúkrunarfræðinga

 

<< Til baka