Dreifibréf nr. 7/2011. D-vítamín

Efni: Upplýsingar um D-vítamín. Mikilvægt að taka lýsi eða annan D-vítamíngjafa


D-vítamín hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu. Hér á norðlægum slóðum, þar sem sólar nýtur lítið við, sérstaklega yfir veturinn, er þörfin fyrir D-vítamín úr fæðu eða fæðubótarefnum meiri en í suðlægari löndum. Rannsóknir hafa sýnt að Íslendingar fá of lítið af D-vítamíni úr fæðunni og að styrkur D-vítamíns í blóði þeirra sem hvorki taka lýsi né önnur fæðubótarefni er töluvert undir viðmiðunar-mörkum.

Skortur á D-vítamíni getur valdið beinkröm, en einnig eru vísbendingar um að vítamínið geti haft almenn og jákvæð áhrif á heilsu fólks. Af þessum sökum minnir Embætti landlæknis á mikilvægi þess að foreldrar tryggi að börnum séu gefnir D-vítamíndropar, lýsi eða annar D-vítamíngjafi, annað hvort heima eða í dagvistun, leik- eða grunnskóla.

Ráðlagður dagskammtur
Ráðlagður dagskammtur (RDS) af D-vítamíni er 10 míkrógrömm (400 AE) á dag fyrir alla frá 4 vikna aldri og að 60 ára. Ráðlagður dagsskammtur fyrir þá sem eru 61 árs og eldri er 15 míkrógrömm á dag (600 AE). Á Norðurlöndum er nú unnið að endurskoðun næringarráðlegginga, þar með talið RDS fyrir D-vítamín og verða niðurstöður kynntar um mitt næsta ár.

Hvernig færðu 10 míkrógrömm af D-vítamíni?
Samkvæmt rannsóknum á næringu ungbarna fá einungis 50-60% íslenskra ungbarna lýsi eða D-vítamíndropa. Ráðlagt er að gefa börnum D-vítamíndropa frá fjögurra vikna aldri og lýsi eftir að barnið er farið að fá fasta fæðu. Hver dropi af D-vítamíndropum inniheldur 2 míkrógrömm af vítamíninu og því þarf 5 dropa fyrir ungbörn. Ein teskeið (5 ml) af krakkalýsi eða þorskalýsi veitir 9,2 míkrógrömm af D-vítamíni.Hér þarf að hafa í huga að venjuleg heimilisteskeið getur verið minni en 5 ml.

Einnig er ráðlagt að gefa þeim börnum sem fá þurrmjólk annaðhvort D-vítamíndropa eða lýsi aukalega. Mikilvægt er að gefa börnum lýsi eða annan D-vítamíngjafa til að tryggja að þau fái ráðlagðan dagskammt.


Hvaða vörur innihalda D-vítamín og hvaða vörur ekki?
D-vítamín er í fáum fæðutegundum og venjulegt hollt fæði veitir ekki nægjanlegt magn D-vítamíns og því þarf að taka lýsi eða annan D-vítamíngjafa daglega. Feitur fiskur, eins og síld, lax, silungur, sardínur og lúða, eru þær fæðutegundir sem innihalda mest af D-vítamíni. Ekkert D-vítamín er að finna í mögrum fisktegundum. Nokkurt magn er af D-vítamíni í eggjarauðum og D-vítamíni er bætt í Stoðmjólk og í litlu magni í Fjörmjólk, en brjóstamjólk inniheldur hins vegar lítið af vítamíninu. Sumar tegundir af morgunkorni, matarolíum, smjörlíki og viðbiti eru D-vítamínbættar.

Áhættuhópar
Á síðastliðnum áratugum hefur börnum af erlendum uppruna fjölgað mjög á Íslandi, ættleiddum börnum og börnum erlendra mæðra sem flust hafa hingað. Hafa ber í huga að börn með dökkan húðlit sem búa þar sem sólar nýtur jafn lítið við og á Íslandi þurfa einnig sérstaklega á D-vítamíni að halda.

Ítarefni:
Bæklingurinn Næring ungbarna. Manneldisráð og Miðstöð um heilsuvernd barna, 2. útg. 2009, 3. útg. 2017.

Ung- og smábarnavernd, leiðbeiningar um heilsuvernd barna 0-5 ára; 6.kafli um fræðslu og forvarnir (Landlæknisembættið, endursk. útgáfa 2010).

Ekki gleyma D-vítamíninu - þú færð ekki nóg úr matnum. Laufey Steingrímsdóttir. (Tekið af heimasíðunni www.landlaeknir.is nóvember 2011).

Tryggja þarf lágmarksinntöku á D-vítamíni til allra. Viðtal við Gunnar Sigurðsson. (Beinvernd, fréttabréf 1. tbl. 9. árg. 2011).

Heimasíðan 6H heilsunnar: www.6h.is

.

Reykjavík, 23. nóvember 2011
Landlæknir

 

Sent: Heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum

 

 

<< Til baka