Heilbrigðisstarfsfólk

Sjá stærri mynd

Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar myndar heild þar sem hver hefur sitt hlutverk. Til þess að geta fullnægt skyldum sínum hefur heilbrigðisþjónustan á að skipa heilbrigðisstéttum, en það eru þær stéttir sem sem njóta lögverndaðs starfsheitis og þurfa starfsleyfi landlæknis til að starfa.

Á Íslandi eru starfandi 35 heilbrigðisstéttir með lögverndað starfssvið.

Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 er eftirlit með heilbrigðisstarfsfólki í höndum landlæknis. Eftirlitið er meðal annars fólgið í því að bregðast við kvörtunum frá sjúklingum og öðrum notendum heilbrigðisþjónustunnar og ábendingum frá almenningi.

Embætti landlæknis tók árið 2008 við því hlutverki að veita öllum heilbrigðisstéttum starfsleyfi. Sótt er um starfsleyfi til embættisins á þar til gerðum eyðublöðum. Hið sama gildir um sérfræðileyfi tiltekinna heilbrigðisstétta.

Eyðublöðin er hægt að nálgast hér á vefnum (sjá síðuna Starfsleyfi).

Landlæknir leggur faglegt mat á hvort öllum skilyrðum fyrir veitingu starfsleyfisins hefur verið fullnægt og gefur síðan út starfsleyfið.