Um embættið

Barónsstígur 47

Með lögum sem gengu í gildi 1. maí 2011 var starfsemi Lýðheilsustöðvar felld undir Embætti landlæknis. Þar með fékk Embætti landlæknis víðtækari verkefni en áður og eru nú öll verkefni á sviði forvarna, heilsueflingar og lýðheilsu á ábyrgð embættisins auk þeirra verkefna sem fyrir voru.

Markmið laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 er að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að því að lýðheilsustarf og heilbrigðisþjónusta byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.

Meginhlutverk embættisins samkvæmt hinum nýju lögum er fjórþætt, ráðgjöf, fræðsla, eftirlit og upplýsingasöfnun. Lagaákvæði um hlutverk embættisins er einnig að finna í sóttvarnalögum og í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007.

Samkvæmt lögum eru helstu hlutverk embættisins þessi:

 • Að veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum, fagfólki og almenningi ráðgjöf og fræðslu.
 • Að annast forvarna- og heilsueflingarverkefni.
 • Að efla lýðheilsustarf og meta reglulega árangur af því starfi.
 • Að vinna að gæðaþróun.
 • Að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsfólki.
 • Að hafa eftirlit með lyfjaávísunum og fylgjast með lyfjanotkun landsmanna.
 • Að veita starfsleyfi til löggiltra heilbrigðisstétta.
 • Að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu.
 • Að bera ábyrgð á framkvæmd sóttvarna, sbr. sóttvarnalög.
 • Að safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu.
 • Að stuðla að því að menntun heilbrigðisstarfsmanna sé í samræmi við kröfur á hverjum tíma og styðja við menntun á sviði lýðheilsu.
 • Að stuðla að rannsóknum á starfssviðum embættisins.


Sóttvarnir
Samkvæmt sóttvarnalögum nr. 19/1997  starfar sóttvarnalæknir við embættið. Hann ber ábyrgð á framkvæmd sóttvarna og  almennum og opinberum sóttvarnaráðstöfunum, þar með talið ráðstöfunum vegna heilsufarslegra afleiðinga eiturefna og geislavirkra efna. Verksvið sóttvarnalæknis er aðallega eftirfarandi:

 • Að skipuleggja og samræma sóttvarnir og ónæmisaðgerðir um land allt, m.a. með útgáfu leiðbeininga um viðbrögð við farsóttum.
 • Að halda smitsjúkdómaskrá til að fylgjast með útbreiðslu smitsjúkdóma.
 • Að halda skrá um notkun manna á sýklalyfjum sem valdið geta ónæmi sýkla gegn sýklalyfjum.
 • Að koma á framfæri upplýsingum um útbreiðslu smitsjúkdóma, innanlands sem utan, til lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna.
 • Að vera læknum og öðrum, sem við sóttvarnir fást, til ráðgjafar.
 • Að hafa umsjón með forvörnum gegn smitsjúkdómum, m.a. með upplýsingum og fræðslu til almennings.

Síðast uppfært 20.03.2012