Bólusetningar ferðamanna

Ferðamenn

Fjölmargir smitsjúkdómar eru landlægir í suðlægum löndum, einkum í hitabeltinu. Rétt er að undirbúa ferðir á þau svæði vel, ráðfæra sig við lækni um þá heilsufarslegu hættu sem kann að vera fyrir hendi og hvaða bólusetningar eru nauðsynlegar þegar farið er á þessi landssvæði. Enda þótt bólusetningar geti verið mikilvægar ferðamönnum er ekki er síður mikilvægt að huga að ýmsum almennum atriðum í tengslum við ferðir til annarra landa.

Sjá nánar Ferðamenn - almennar ráðleggingar

Bólusetningar og nánari upplýsingar um þær er hægt að fá á Göngudeild sóttvarna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, heilsugæslustöðvum og öðrum aðilum sem fengið hafa til þess leyfi sóttvarnalæknis, s.s. Ferðavernd ehf í Læknasetrinu í Mjódd og Heilsuvernd í Glæsibæ.

Bólusetningar 

Erfitt er að gefa einhlítar ráðleggingar um bólusetningu ferðamanna. Þeir þættir sem ráða því hvort og með hvaða bóluefni viðkomandi verði bólusettur eru:

  • Saga um fyrri bólusetningar
  • Til hvaða lands og landsvæðis er verið að fara
  • Hversu lengi mun viðkomandi dvelja í landinu og við hvaða aðstæður
  • Hversu algengir eru sjúkdómar sem bólusett er gegn á ferðasvæði viðkomandi

Sjúkdómar sem bólusett er gegn

Gulusótt (Yellow Fever) er moskítóborin veirusýking sem valdið getur alvarlegum einkennum. Líkurnar á því að fá sjúkdóminn eru litlar en ráðlegt er að bólusetja sig gegn honum ef dvalist er í sveitum landa þar sem hann er landlægur. Þessi lönd eru: Panama, Venezuela, Súrínam, Guyana, Franska Guiana, Kólumbía, Brasilía, Perú, Bólivía, Ekvador, og öll Afríkuríki sunnan 15 breiddargráðu norðan miðbaugs og norðan 15 breiddargráðu sunnan miðbaugs.

Sum Afríkuríki krefjast vottorðs um bólusetningu gegn gulusótt af öllum sem koma inn í viðkomandi lönd. Önnur lönd í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu krefjast vottorðs um bólusetningu af þeim sem koma frá landi þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Einn skammtur af bóluefninu dugir fyrir lífstíð. 

Á Íslandi er hægt að fá bólusetningu þessa gerða á Miðstöð sóttvarna (áður Heilsuverndarstöð Reykjavíkur), göngudeild smitsjúkdóma á Landspítala Fossvogi og á heilsugæslustöðvum. 

Japönsk heilabólga (Japanese B encephalitis). Japönsk heilabólga er moskítóborin veirusýking sem valdið getur alvarlegum einkennum. Líkurnar á því að fá sjúkdóminn eru litlar en ráðlegt er að bólusetja sig gegn honum ef dvalist er í sveitum landa þar sem hann er landlægur. Hann kemur fyrir einkum á þremur svæðum. Það er í fyrsta lagi Kína og Kóreu, öðru lagi Indlandi og hlutum af Bangladesh, Suður-Nepal og Sri Lanka. Í þriðja lagi í nokkrum löndum Suð-austur Asíu, þ.e.a.s. Burma, Thailandi, Kampuchea, Laos, Vietnam, Malasíu, Indonesiu og á Filipseyjum.

Sjúkdómurinn getur einnig komið fyrir í Japan, Taiwan, Singapore, Hong Kong og austurhluta Rússlands. Útbreiðsla sjúkdómsins er árstíðarbundin og fylgir algengi moskítófluga. Í Kína og Kóreu og á öðrum tempruðum svæðum er sjúkdómurinn algengastur að sumri til og á hausti. Á hitabeltissvæðum er áhættan tengd rigningartímanum sem getur verið breytilegur frá landi til lands. Líkurnar á því að smitast af japanskri heilahimnubólgu er þó að öllum líkindum mjög lítil. Til er bóluefni gegn japanskri heilabólgu. Bólusetning er fyrst og fremst ráðlögð fyrir þá sem ætla að búa í sveitum landanna í fjórar vikur eða lengur og þegar þekkt er að faraldur er í gangi.

Kólera er smitsjúkdómur sem berst með menguðu vatni og matvælum og veldur svæsnum niðurgangi. Hættan á smitun er mjög lítil. Bóluefni sem notuð hafa verið gegn þessum sjúkdómi hafa verið gagnslítil. Kólerubólusetning er því að jafnaði ekki ráðlögð nema fyrir þá sem hafa magasár og eru á meðferð sem vinnur gegn magasýru. Endurbætt bóluefni hafa komið fram en þau veita þó ekki vörn gegn öllum afbrigðum kóleru. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gerir ekki kröfu um bólusetningu til ferðamanna.

Taugaveiki (Typhoid Fever) er bakteríusýking orsökuð af Salmonella typhi og getur verið alvarleg. Hún smitast með matvælum og menguðu vatni. Þeir sem ferðast um sveitahéruð hitabeltislanda ættu að láta bólusetja sig enda þótt bóluefnið veiti ekki fulla vörn.

Lömunarveiki, stífkrampi og barnaveiki. Flestir hér á landi hafa verið bólusettir gegn þessum sjúkdómum á barnsaldri og þurfa því ekki að öllu jöfnu að láta bólusetja sig á fullorðinsárum. Lömunarveiki og barnaveiki eru hins vegar ennþá landlægar víða um heim og viss hætta er á stífkrampa ef óhreinindi komast í sár. Því er ráðlagt að ferðamenn séu bólusettir gegn barnaveiki og lömunarveiki ef þeir hafa í hyggju að ferðast til landa þar sem þessir sjúkdómar fyrirfinnast og meira en 10 ár hafa liðið frá síðustu bólusetningu.

Berklar eru enn á ný vaxandi vandamál í þróunarlöndum og víða í Austur-Evrópu. Fæstir Íslendinga hafa verið bólusettir gegn berklum. Ráðlegt er að þeir sem hyggja á langdvöl í Asíu, Afríku, Mið- og Suður-Ameríku og Austur-Evrópu láti bólusetja sig gegn berklum.

Kannaðu þá hættu sem gæti ógnað heilsu þinni og hvaða bólusetningar eru nauðsynlegar þegar þú leggur land undir fót.

 

 

Síðast uppfært 22.12.2016