Fara beint í efnið

Farsóttir virða engin landamæri og þurfa því sóttvarnir eðli málsins samkvæmt að vera alþjóðlegar. Íslendingar taka þátt í eftirfarandi alþjóðlegu samstarfi um sóttvarnir:

Norrænt samstarf

Sóttvarnalæknar Norðurlandanna hittast reglulega á samráðsfundum.


Stofnanir sem sinna sóttvörnum á Norðurlöndum

Sóttvarnir Evrópusambandsins (ESB) og EES ríkja 

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (European Centre for Disease Prevention and Control - ECDC) hefur aðsetur í Stokkhólmi. Sóttvarnalæknir er fulltrúi Íslands í faglegum ráðgjafahópi stofnunarinnar, en fulltrúi heilbrigðisráðuneytis situr í stjórn stofnunarinnar.

Hlutverk ECDC er að vakta smitsjúkdóma í ESB/EES og vera aðildaríkjum sambandsins til ráðgjafar um sóttvarnaráðstafanir. Stofnunin gegnir einnig mikilvægu hlutverki í menntun starfsmanna sem sinna sóttvörnum. 

Þá á Ísland sæti í heilbrigðisöryggisnefnd ESB (EU Health Security Committee) sem er til ráðgjafar um almennan viðbúnað í Evrópuríkjunum við heilsuvá af völdum sýkla, eiturefna og geislavirkra efna. Sóttvarnalæknir situr í nefndinni fyrir Íslands hönd. 

Alþjóðaheilbrigðisreglugerðin

Á þingi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í maí 2005 var samþykkt endurskoðuð alþjóðaheilbrigðisreglugerð og tók hún gildi hér á landi 15. júní 2007.  (International Health Regulation –  IHR).

Reglugerðin er alþjóðlegur bindandi sáttmáli sem hefur að markmiði að hindra útbreiðslu hættulegra smitsjúkdóma og sjúkdóma af völdum eiturefna og geislavirkra efna milli landa.

Reglugerðin kveður á um ítarlega skoðun og nýja tegund sóttvarnavottorða fyrir skip í stað svokallaðra rottuvottorða. Millilandaskip munu framvegis geta fengið skoðun í 23 viðurkenndum höfnum á landinu og fengið viðeigandi vottorð sem þarf að endurnýja á 6 mánaða fresti.

Í reglugerðinni er að finna ýmis ákvæði sem snerta íslensk lög og reglugerðir um sóttvarnir og heilsufarslegar afleiðingar eiturefna og geislavirkra efna sem hafa alþjóðlega þýðingu.

Með breytingu á sóttvarnalögum nr. 19/1997, sem tóku gildi vorið 2007, er kveðið á um að Ísland sé bundið af reglugerðinni og að sóttvarnalæknir sé landstengiliður Íslands við WHO um allt sem varðar þessa reglugerð.

Þessi nýja reglugerð leysir af hólmi eldri reglugerðir sem eiga rætur að rekja allt til 19. aldar, en allar fjölluðu þær um reglur til að stemma stigu við því að sjúkdómar bærust milli landa með skipum.

Alþjóðaheilbrigðisreglugerðin er mikilvægt alþjóðlegt regluverk viðbúnaðar og viðbragða við heimsfaraldri smitsjúkdóma, s.s. inflúensu, HABL (SARS) o.fl.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis