Fara beint í efnið

Góður svefn fyrir heilsu og vellíðan - alþjóðlegi svefndagurinn 15. mars 2024

14. mars 2024

Föstudagurinn 15. mars er alþjóðlegi svefndagurinn en hann hefur verið haldinn síðan 2008. Þema dagsins að þessu sinni er: „Sleep Equity for Global Health“ (sem mætti þýða sem: Regla á svefni fyrir heilsu á heimsvísu).

Stuðlum að betri svefni með góðum svefnvenjum

Hið íslenska svefnrannsóknafélag ásamt helstu svefnfræðingum landsins hafa verið í fararbroddi síðastliðin ár og haldið þessum degi á lofti ásamt því að vekja þjóðina til vitundar um mikilvægi svefns. Embætti landlæknis hefur einnig tekið þátt og lagt sitt af mörkum í þeirri vitundarvakningu og komið skilaboðunum á framfæri á samfélagsmiðlum, málþingum o.fl. en ekki síst með heilsueflandi vitundarvakningu í leik-, grunn- og framhaldsskólum, samfélögum og vinnustöðum.

Í tilefni dagsins mun Hið íslenska svefnrannsóknafélag standa fyrir hádegis málþingi í Hringsal Landspítala við Hringbraut, föstudaginn 15. mars kl. 12:00 – 13:00 (gengið inn um Barnaspítala inngang). Málþingið er opið öllum.

Góður svefn fyrir bætta heilsu – ráð fyrir þig og þína

  • Fundarstjóri er Michael Clausen

  • Hreyfing og svefn – Vaka Rögnvaldsdóttir

  • Næring og svefn – Anna Sigríður Ólafsdóttir

  • Andleg heilsa og svefn – Erla Björnsdóttir


Góður svefn er mikilvæg forsenda fyrir heilsu og vellíðan. Svefn er okkur öllum nauðsynlegur til þess að takast á við fjölbreytt viðfangsefni daglegs lífs. Svefn, ásamt hreyfingu og næringu, spilar stórt hlutverk í samspili þeirra áhrifaþátta sem hafa góð áhrif á heilsu og vellíðan.

Við þurfum að skapa okkur rútínu sem gefur okkur svigrúm til að huga að þessum mikilvægu þáttum. Góð svefnrútína er í raun það mikilvægasta til að ná góðum svefni en einnig þarf að huga að daglegri hreyfingu, hollu mataræði og forðast koffín (sérstaklega eftir kl. tvö á daginn), nikótín, áfengi og takmarka skjánotkun rétt fyrir svefn.

Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að íslensk ungmenni sofa of lítið en ráðlagður svefntími fyrir ungmenni 14-17 ára er 8-10 tímar. Í gögnum Rannsóknar og greiningar hefur komið fram að tæplega helmingur unglinga 13-15 ára sofa 7 tíma eða minna og um 70% ungmenna í framhaldsskólum sofa of lítið. Ráðlagður svefntími fyrir fullorðna er 7-9 tímar en vöktun embættis landlæknis á völdum áhrifaþáttum heilbrigðis fyrir árið 2023 sýnir að 26% fullorðinna sofa minna en 7 tíma á nóttu. Því miður hefur lítil breyting orðið á svefntíma fullorðinna undanfarin ár.

Embætti landlæknis hefur tekið saman ráðleggingar sem stuðla að betri svefni sem hægt er að prenta út og hafa á áberandi stað í skólum, vinnustöðum og stofnunum. Einnig er mikilvægt að kynna sér æskilegan svefntíma fyrir hvert aldurskeið.

Lýðheilsusvið