Færni- og heilsumat

Eldri hjón

Færni- og heilsumat er faglegt, einstaklingsbundið mat á þörfum einstaklinga fyrir varanlega búsetu á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Um er að ræða staðlað mat ásamt skilgreindum upplýsingum frá heilbrigðis- og félagsþjónustu og svæðisskrifstofu málefna fatlaðra auk læknabréfa frá læknum viðkomandi eftir því sem við á. 

Metnar eru félagslegar aðstæður, heilsufar og andlegt ástand auk þess sem metin er færni í athöfnum daglegs lífs og gefur niðurstaða færni- og heilsumats til kynna hversu mikil þörf er fyrir langtíma búsetu á hjúkrunar- eða dvalarheimilum. 

Færni- og heilsumatsferlið er sniðið að erlendri fyrirmynd og hefur gefist vel. Matinu er ætlað að endurspegla raunverulega þörf fólks sem þarf á varanlegri búsetu á hjúkrunar- eða dvalarheimili að halda, óháð aldri. 

Einfaldari stjórnsýsla
Þann 1. júní 2012 gekk í gildi ný reglugerð velferðarráðherra sem kveður á um störf færni- og heilsumatsnefnda og breytt fyrirkomulag við mat á þörf fólks fyrir búsetu í dvalar- og hjúkrunarrými eða tímabundna hvíldarinnlögn. 

Með breytingunni 1. júní hafa vistunarmatsnefndir hjúkrunar- og dvalarrýma verið sameinaðar. Í þeirra stað hefur verið skipuð ein færni- og heilsumatsnefnd í hverju heilbrigðisumdæmi sem metur þörf fólks fyrir þessi úrræði í stað tveggja nefnda áður. Sameining nefndanna er gerð í samræmi við breytingu á lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu sem Alþingi samþykkti 20. mars 2012. 

Markmiðið er að auðvelda fólki að sækja um búsetu á hjúkrunar- eða dvalarheimili og jafnframt að einfalda stjórnsýsluna, enda fækkar nefndum úr fjórtán í sjö. Breytingin felur einnig í sér að framvegis þarf að sækja um tímabundna hvíldarinnlögn til færni- og heilsumatsnefnda. 

Embætti landlæknis hefur yfirumsjón með framkvæmd færni- og heilsumats bæði fyrir hjúkrunar- og dvalarrými. 


Hvenær skal sækja um færni- og heilsumat? 
Stefna heilbrigðisyfirvalda er að fólki sé gert kleift að búa á eigin heimili utan stofnana eins lengi og unnt er með viðeigandi heilbrigðis- og félagsþjónustu. 

Þegar aðstæður eru orðnar þannig að fólk getur ekki lengur búið heima þrátt fyrir stuðning heilbrigðis- og félagsþjónustu er tímabært að sækja um færni- og heilsumat og þarf þá viðkomandi að vera tilbúinn að þiggja hjúkrunar- eða dvalarrými þegar það býðst. 

Gildistími færni- og heilsumats sem samþykkt hefur verið eru tólf mánuðir frá staðfestingu þess. Hafi einstaklingi ekki boðist að flytja á hjúkrunar- eða dvalarheimili innan þess tíma þarf að endurnýja matið.

Umsóknareyðublað
Umsókn um færni- og heilsumat þarf að berast færni- og heilsumatsnefndum á sérstöku eyðublaði sem hægt er að nálgast á þessum vef (sjá hér fyrir neðan og í reit til hægri). Ekki er hægt að senda umsóknina rafrænt heldur verður að prenta hana út og koma til viðkomandi færni- og heilsumatsnefnda. 

Hér er hægt að nálgast eyðublað fyrir umsókn um færni- og heilsumat og einnig eyðublað fyrir umsókn um hvíldarinnlögn á hjúkrunarheimili

 

Lífeyrisgreiðslur
Ástæða er til að vekja athygli umsækjenda um færni- og heilsumat á því að þegar lífeyrisþegi flyst á hjúkrunar- eða dvalarheimili falla niður lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (TR).

Við það að greiðslur falla niður myndast réttur til vasapeninga sem eru tekjutengdir. Mikilvægt er að umsækjendur kynni sér þátttöku í dvalarkostnaði og kostnað við búsetu.

Frekari upplýsingar um þessi efni er að finna á vefsetri TR.

Greinar og ítarefni

Síðast uppfært 17.12.2015