Fara beint í efnið

Biðtími eftir heilbrigðisþjónustu hér á landi, svo sem ýmsum skurðaðgerðum, er oft langur en forgangsröðun, sem byggir á læknisfræðilegum sjónarmiðum og öðrum faglegum forsendum, fer fram innan heilbrigðiskerfisins.

Þeir einstaklingar sem hafa brýnasta þörf fyrir heilbrigðisþjónustu ganga fyrir, t.d. vegna alvarlegra bráðatilfella, lífshættulegra sjúkdóma og slysa. Einstaklingar sem þurfa á meðferð að halda vegna annarra sjúkdóma og minni háttar slysa geta því þurft að bíða.

Einhver bið innan heilbrigðiskerfisins er eðlileg af fleiri ástæðum. Skipuleggja þarf starfsemi heilbrigðisstofnana fram í tímann, t.d. mönnun, aðföng og nýtingu skurðstofa . Sjúklingar geta þurft að bíða mislengi eftir því á hvaða heilbrigðisstofnun og/eða hjá hvaða lækni þeir eru skráðir. Þá þurfa sjúklingar oft að gera ýmsar ráðstafanir áður en þeir geta nýtt sér heilbrigðisþjónustu, svo sem að gangast undir skurðaðgerð, meðal annars varðandi fjölskyldu og vinnu. Sjúklingar geta sjálfir í samráði við sinn lækni frestað aðgerð en þannig lengist biðtíminn.

Viðmið um bið eftir heilbrigðisþjónustu

Með biðtíma er átt við þann tíma sem líður frá því að sjúklingur hefur samband við heilbrigðisþjónustu út af einkennum eða frá því að þörf fyrir viðkomandi þjónustu er greind. (Þessi tímamörk eiga að sjálfsögðu ekki við þegar um bráðaþjónustu er að ræða eða um greiningu og meðferð illkynja sjúkdóma).

Almenn viðmið embættis landlæknis eru:

  • Samband við heilsugæslustöð samdægurs.

  • Viðtal við heilsugæslulækni innan 5 daga.

  • Skoðun hjá sérfræðingi innan 30 daga.

  • Aðgerð/meðferð hjá sérfræðingi innan 90 daga frá greiningu.

Samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga ber læknum að gefa sjúklingum sínum skýringar á því hvers vegna bið er eftir aðgerð eða annarri meðferð. Þá er þeim ennfremur skylt að veita upplýsingar um áætlaðan biðtíma og þá möguleika sem eru á að fá aðgerðina/meðferðina framkvæmda fyrr annars staðar.

Réttur til að sækja heilbrigðisþjónustu til annarra ríkja innan Evrópu

Sjúkratryggðum einstaklingum er gert kleift að sækja heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins, gegn endurgreiðslu kostnaðar frá sjúkratryggingum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sjá nánar á vef Sjúkratrygginga.

Lög og reglugerðir

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis